Ljósmóðurfræði, Ph.D., 180 eða 240 einingar
Til að innritast í doktorsnám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild þarf nemandi að hafa lokið MS prófi í ljósmóðurfræði eða öðru prófi sem rannsóknanámsnefnd metur að sé samsvarandi eða jafngilt.
- Ferilskrá (CV)
- Leiðbeinandi/umsjónakennari við Háskóla Íslands
- Staðfest afrit af námsferli og prófskírteini frá háskóla. Á ekki við þau sem hafa útskrifast frá HÍ.
- Ef umsækjandi hefur erlent ríkisfang og erlent próf þarf að skila staðfestingu á enskukunnáttu.
Samhliða vinnu við doktorsritgerðina skal doktorsnemi stunda nám eftir því sem gert er ráð fyrir í náms- og rannsóknaráætlun hans.
Verk til doktorsprófs getur verið hvort sem er í formi heildstæðrar ritgerðar eða safns greina sem hafa birst eða verið sendar til birtingar í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum. Með greinasafni skal ávallt fylgja ítarleg samantekt á verkinu og yfirlit yfir þekkingu á þeim fræðasviðum sem verkið tekur til.
Til doktorsritgerða eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu.
Við lok doktorsprófs hefur nemandi náð eftirfarandi viðmiðum til viðbótar þeim er náð var á meistarastigi:
Þekking: Við útskrift býr nemandi yfir sérfræðiþekkingu innan ljósmóðurfræði.
Í því felst að nemandi:
- býr yfir yfirgripsmiklum og ítarlegum skilningi á helstu kenningum, grundvallaratriðum, hugtökum og nýjustu þekkingu sem völ er á sviði ljósmóðurfræði
- hafi haft frumkvæði að sköpun nýrrar þekkingar og túlkun hennar með rannsóknum sínum sem stenst skoðun og rýni fræðimanna á fagsviði fræðigreinarinnar
- hafi lagt til mikilvægar nýjungar í formi nýrrar þekkingar eða túlkunar á þeirri þekkingu sem fyrir er
- sýni að hann hafi þekkingu á siðfræði vísinda og hafi tekið íhugaða afstöðu til eigin rannsókna og annarra út frá eigin siðviti.
Leikni: Við útskrift getur nemandi beitt sérhæfðum aðferðum og verklagi á sérsviði fræðigreinarinnar ljósmóðurfræði.
Í því felst að nemandi:
- geti skipulagt og framkvæmt viðamiklar rannsóknir sem útvíkka og/eða endurskilgreina gildandi aðferðafræði fræðigreinarinnar
- geti kannað, þróað og beitt kerfisbundnum aðferðum til öflunar og greiningar upplýsinga til að taka á nýjum vandamálum og viðfangsefnum ljósmóðurfræðinnar
- hafi á hraðbergi grundvallarfærni, aðferðir og heimildir sem tengjast ljósmóðurfræði
- geti tiltekið sérhæfðan hugbúnað til endurbóta á aðferðum og vinnulagi
- geti metið tölulegar og myndrænar upplýsingar á gagnrýninn hátt
- hafi beitt nýstárlegum rannsóknum eða þróað vinnuaðferðir sem bæta við eða víkka út gildandi þekkingarsvið ljósmóðurfræðinnar
- sýni frumleika í þróun og hagnýtingu nýrrar þekkingar, skilnings og aðferða
- hafi tileinkað sér gagnrýna afstöðu til þekkingar og er fær um að veita kennslu á háskólastigi í fræðigreininni
- hafi kynnt fræðiritgerð sem er birtingarhæf í ritrýndri útgáfu innanlands eða á alþjóðavettvangi.
Hæfni: Við útskrift geti nemandi hagnýtt þekkingu sína og leikni í starfi og/eða frekara námi.
Í því felst að nemandi:
- geti tekið fulla ábyrgð á eigin verkefnum og á vinnu annarra
- sé vandvirkur og meðvitaður um takmörk þekkingar sinnar
- geti sýnt sjálfstæði og frumkvæði í faglegri og fræðilegri vinnu
- geti á árangursríkan hátt sagt jafningjum, öðrum fræðimönnum og almenningi frá sérfræðisviði sínu í ljósmóðurfræði
- geti tekið þátt í gagnrýnum samræðum, átt frumkvæði að og leitt fræðileg samskipti
Helga Gottfreðsdóttir prófessor.
Nám til doktorsprófs í ljósmóðurfræði er þriggja eða fjögurra ára fullt nám að loknu meistaraprófi. Stundi doktorsnemi námið að hluta má námið taka allt að fimm ár. Ef ekki tekst að ljúka náminu á þeim tíma getur doktorsnemi sótt um undanþágu frá tímamörkum til Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar. Verði undanþága veitt má setja þau skilyrði að doktorsnemi uppfylli þær kröfur sem þá eru í gildi um doktorsnám þótt hann hafi hafið námið meðan aðrar reglur giltu.
Markmið doktorsnáms í ljósmóðurfræði er að veita doktorsnemanum þjálfun og innsýn í rannsóknaraðferðir fræðigreinarinnar og tengdra greina og að neminn öðlist ítarlega þekkingu á sviði doktorsverkefnis síns. Í náminu felst þjálfun í undirbúningi og framkvæmd rannsókna, úrvinnslu og túlkun rannsóknarniðurstaðna, kynningu og rökræðum á eigin rannsóknum í samhengi við þekkingu á fræðasviðinu svo og birtingu í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Þannig verði doktorsefnið vel undir það búið að starfa sjálfstætt að vísindum.
Ekki er sérstakur umsóknarfrestur fyrir doktorsnám. Skila þarf inn rafrænni umsókn ásamt umsóknareyðublaði eftir því hvort rannsóknaráætlun er skilað inn um leið eða síðar.