Í námskeiðinu verður fjallað um valin málfræðiatriði í íslenska táknmálinu sem ákvarðast af áhuga og forþekkingu nemendahópsins hverju sinni. Í ár verður áhersla á samspil bókmennta og málfræði með sérstakri áherslu á lýsandi sagnir og notkun látbrigða. Nemendur fá þjálfun í söfnun og greiningu gagna og vinna sjálfstæð rannsóknarverkefni um málfræðiatriði í íslenska táknmálinu. Markmiðin með námskeiðinu eru annars vegar að nemendur öðlist færni í að viða að sér gögnum, vinna úr þeim og draga af þeim fræðilegan lærdóm, hins vegar að auka færni þeirra í að skilja og tjá látbrigði og lýsandi sagnir, m.a. í gegnum VV listformið. Byggt er á þeirri þekkingu sem nemendur tileinkuðu sér í námskeiðinu TÁK303G Málfræði táknmáls II (látbrigði). Nemendur vinna verkefni jafnt yfir misserið, standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.
Að námskeiði loknu eiga nemendur að geta:
- lýst þeim málfræðiatriðum sem fengist er við í námskeiðinu hverju sinni, hér lýsandi sögnum og látbrigðum.
- tileinkað sér mismunandi lýsandi sagnir sem og flókin, fjölbreytt og fíngerð látbrigði og vera færir um að nýta sér málfræðilega rétt í eigin tjáningu.
- greint í sundur og túlkað ólíkar tegundir, málsnið og stílbrögð þeirra táknmálsbókmennta sem flokkast undir Visual Vernacular (VV).
- næga þekkingu og færni til að geta skapað eigin táknmálsbókmenntir.
- rætt um hugtakanotkun innan efnisins sem fengist er við og gagnrýnt ef við á.
- aflað gagna til rannsókna og beitt viðeigandi málfræðihugtökum á eigin gögn.
- gert grein fyrir rannsókn, aðferðum, stöðu þekkingar og niðurstöðum í formi ritgerðar.
Markmið: Að nemendur átti sig á málfræðilegum þáttum látbrigða í íslenska táknmálinu. Einnig að nemendur öðlist færni í að viða að sér gögnum, vinna úr þeim og draga af þeim fræðilegan lærdóm.
Viðfangsefni: Framhald af Málfræði táknmáls I sem er nauðsynlegur undanfari. Áhersla á greiningu táknmáls, umritun og úrvinnslu. Málfræðilegt hlutverk látbrigða verður rætt og nemendur fá þjálfun í að beita málfræðihugtökum á eigin gögn. Einnig verður fjallað um aðferðafræði í táknmálsrannsóknum.
Vinnulag: Kennsla er í fyrirlestrarformi en einnig eru skoðuð dæmi úr íslenska táknmálinu á myndböndum. Nemendur vinna verkefni jafnt yfir misserið.
Námsmat: Felst í skriflegum verkefnum sem dreifast jafnt yfir misserið.
Að námskeiði loknu eiga nemendur að:
- vera færir um að umrita táknmálstexta og geta nýtt umritun til rannsókna
- geta lýst, útskýrt og skilgreint málfræðileg hlutverk látbrigða í íslenska táknmálinu og táknmálum almennt
- geta lagt mat á þau látbrigði sem birtast í táknmálstexta, geta rökstutt málfræðilegt hlutverk þeirra og spáð fyrir um hlutverk þeirra í íslenska táknmálinu
- vera færir um að beita málfræðilegum hugtökum er varða látbrigði
- geta gagnrýnt og lagt mat á fræðilega umræðu og heimildir um látbrigði og endurskoðað fyrir íslenskt táknmál
- geta aflað gagna til rannsókna og beitt viðeigandi málfræðihugtökum á eigin gögn
- geta rökstutt og lagt mat á sérhæfð viðfangsefni er varða látbrigði í táknmálum og gert grein fyrir í formi ritgerðar

