Jöklar bregðast hratt við breytingum í loftslagi, breytingar í þeim gefa skýra mynd af hitabreytingum, en þeir hafa einnig áhrif á loftslagið t.d. vegna endurkasts áhrifa og breytinga í sjávarstöðu þegar ísinn bráðnar. Í þessu námskeiði verður fjallað um jökla, dreifingu þeirra á jörðinni, hvernig þeir myndast úr snjó, hvernig þeir hreyfast og bregðast við loftslagsbreytingum. Áhersla er á íslenska jökla, orkubúskap þeirra og afkomu, samspil jökla og jarðhita og eldfjalla og tíð jökulhlaup frá Vatnajökli. Í námskeiðinu munu nemendur læra hugtök og tungutak jöklafræðinnar, sem auðveldar þeim að skilja og taka þátt í umræðum um loftslagsbreytingar og hlutverk jökla í loftslagi jarðarinnar. Kunnátta í eðlisfræði og stærðfræði er gagnleg fyrir námskeiðið því reiknisdæmi sem fjalla um hitastig, orkubúskap, afkomu og flæði jökla verða leyst í hópvinnu. Mælitækni jöklafræðinnar verður kynnt og í lok námskeiðsins setja nemendur leysinga stikur í Sólheimajökul í tveggja daga ferð. Skyldumæting er í ferðina.
Að loknu námskeiðinu eiga nemendur að vera færir um að:
- Geta úskýrt og beitt hugtökum jöklafræðinnar í faglegu starfi og sett umræður um jökla og jöklabreytingar t.d. í fréttum eða vefmiðlum í samhengi við umfjöllun um efni námskeiðsins.
- Beita hugtökum jöklafræði til að útskýra hvernig veðurfar hefur áhrif á myndun, útbreiðslu og afkomu jökla og íss.
- Nota eðlisfræði, varmafræði og orkubúskap til útskýra hitastig í jöklum, orkuskipti við botn og yfirborð og reikna afkomu og bráðnun jökla.
- Geta reiknað hreyfingar jökla og dregið ályktanir út frá reikningunum hver afkoma þeirra er og hvernig flæði jökla viðheldur stærð og legu þeirra.
- Lýsa og útskýra hvernig fjarkönnun er notuð til að mæla afkomu jökla og skilja gildi íssjár-, GPS- og InSAR-mælinga fyrir jöklafræði.
- Útskýra hvaða upplýsingar er hægt að afla úr borkjörnum í jöklum.
- Dýpka þekkingu á völdu efni í samvinnu við aðra nemendur og skrifa upp stutta lýsingu á afrakstri vinnunar og kynna hana fyrir samnemendum.
Bókalisti er óstaðfestur





