Námskeiðið er hugsað sem ítarlegt sögulegt yfirlit yfir helstu kenningar kvikmyndafræðinnar allt frá upphafi til dagsins í dag. Lesnar verða kenningar frumherja á borð við Sergei Eisenstein, Rudolf Arnheim, Siegfried Kracauer og André Bazin. Tekin verða fyrir margvísleg og róttæk umskipti í nálgun kvikmynda á seinni hluta tuttugustu aldar, líkt og formgerðargreining, marxísk efnistúlkun, sálgreining og femínismi. Loks verða áhrif menningarfræðinnar rædd með áherslu á kynþætti og skoðuð staða kvikmyndarinnar á tímum hnattvæðingar. Kvikmyndir námskeiðsins munu endurspegla margbreytileika lesefnisins enda er þeim ætlað að draga fram sérstöðu ólíkra kenninga.
Að nemendur:
- Þekki til hlítar lykilhugtök í greiningu á kvikmyndum
- Öðlist þekkingu á helstu kenningasmiðum kvikmyndafræðinnar
- Öðlist færni í greiningu sem byggir á kvikmyndakenningum
- Þekki sögu og þróun kvikmyndakenninga á 20. öld
- Kynnist og túlki nokkur af lykilverkum kvikmyndasögunnar
- Geti tjáð sig í ræðu og riti um efni námskeiðsins
Hér er um að ræða grunnfag námsgreinarinnar kvikmyndafræði þar sem kynnt eru til sögunnar lykilhugtök og aðferðir í túlkun kvikmynda. Farið verður ítarlega í frásagnaruppbyggingu og sviðsmynd kvikmynda, sem og kvikmyndatöku, klippingu, hljóðvinnslu og tónlist. Ræddar verða ólíkar gerðir kvikmynda og sýnd dæmi um heimilda- og tilraunamyndir auk hefðbundinna leikinna kvikmynda. Í framhaldi munu nemendur kynnast fræðilegri kvikmyndarýni þar sem lögð er áhersla á kvikmyndagreinar, -höfunda og -stjörnur. Á kvikmyndasýningunum verða dregin fram þau sérkenni sem einkenna lesefni hverrar viku enda er námskeiðið að stórum hlut hugsað sem inngangur og æfing í kvikmyndarýni.
Að nemendur:
- Tileinki sér lykilhugtök í greiningu á kvikmyndum
- Öðlist þekkingu á kvikmyndagreinum og kvikmyndahöfundum
- Öðlist færni í greiningu á kvikmyndum
- Kynnist ólíkum gerðum kvikmynda, þ. m. t. leiknar kvikmyndir, heimildamyndir og tilraunamyndir
- Kynnist og túlki nokkur af lykilverkum kvikmyndasögunnar
- Geti tjáð sig í ræðu og riti um efni námskeiðsins
Nemendur verða annaðhvort að hafa lokið námskeiðinu Kvikmyndarýni eða Kvikmyndafræði.


