Hefur vantraust á stjórnmálum áhrif á þátttöku fólks í kosningum, og ef svo hefur það sömu áhrif á unga kjósendur og þeirra sem eru eldri? Hvað útskýrir það hvort að fólk staðsetur sig til hægri eða til vinstri í stjórnmálum? Eru kjósendur sem eru í veikri félags- og efnahagslegri stöðu opnari fyrir málflutningi svokallaðra popúlískra flokka? Í þessu námskeiði verður farið yfir hvernig stjórnmálafræðingar prófa orsakakenningar með megindlegum aðferðum. Nemendum verður kennt um spurningagerð og spurningakannanir, aðhvarfsgreiningu og forsendur hennar og greiningu á tilraunum og hálf-tilraunum. Áhersla er á að nemendur beiti tölfræðilegum aðferðum á fyrirliggjandi gögn til þess að svara rannsóknaspurningum um orsakasamhengi og orsakasambönd. Nemendur öðlast skilning á kostum og göllum ólíkra megindlegra rannsóknarsniða, sérstaklega með tilliti til innra og ytra réttmætis. Nemendur þróa rannsóknarverkefni og greina gögn.
Að loknu námskeiði eiga nemendur að geta:
- Geta mótað rannsóknarspurningar / tilgátur sem fela í sér orsakatengsl og valið viðeigandi rannsóknaraðferð til að svara þeim / prófa þær.
- Geta samið spurningar og að sett saman staðlaðan spurningalista
- Geta beitt aðhvarfsgreiningu, bæði línulegri og ólínulegri
- Geta útskýrt og greint samvirkni á milli 2ja þátta með notkun aðhvarfsgreiningar
- Geta greint kosti og galla ólíkra rannsóknasniða með tilliti til þess hvers konar ályktanir er hægt að draga af þeim.
- Hafa fengið þjálfun í að greina gögn og skrifa rannsóknaritgerð
Stjórnmálafræðingar safna margvíslegum tölulegum gögnum um einstaklinga, lönd, einkenni stjórnkerfa og margt fleira. Iðulega er það markmið rannsakenda að nota slík gögn til þess að draga almennar ályktanir um hvernig stjórnmál ganga fyrir sig. Til þess þarf að beita ályktunartölfræði, eða tölfræðiprófum. Í þessu inngangsnámskeiði að ályktunartölfræði læra nemendur í fyrstu um grundvallaratriði ályktunartölfræði: Normalkúrfu, úrtaksdreifingu, höfuðsetningu tölfræðinnar, tilgátupróf, höfnunar- og fastheldnimistök. Því næst læra nemendur um tölfræðipróf og hljóta reynslu í að túlka og reikna þau í tölfræðiforriti. Farið verður yfir t-próf fyrir eitt og tvö úrtök, kí-kvaðrat, einhliða og tvíhliða drefigreining milli og innan hópa.
Að námskeiði loknu eiga nemendur að geta:
- Útskýrt forsendur ályktunartölfræði út frá úrtakadreifingu og höfuðsetningu tölfræðinnar.
- Geta reiknað t-próf, vikmörk, kí-kvaðrat og einhliða dreifigreiningu í höndunum.
- Til viðbótar við ofangreind tölfræðipróf eiga nemendur að geta reiknað tvíhliða dreifigreiningu milli og innan hópa með tölfræðiforriti (t.d. SPSS) og geta túlkað útreikninga.
- Valið og beitt viðeigandi tölfræðiprófum til að svara einföldum tölfræðilegum rannsóknarspurningum.
- Greint frá niðurstöðum tölfræðiprófa og túlkað niðurstöður þeirra.
Nauðsynleg undirstaða STJ208G Gagnalæsi og –framsetning
Gögn skipta sífellt meira máli í störfum stjórnmálafræðinga, hvort sem er í opinberri stjórnsýslu, í fjölmiðlum og viðskiptum, í félagsstörfum eða í rannsóknum. Að vera læs á gögn og geta miðlað tölulegum upplýsingum skiptir því grundvallarmáli fyrir stjórnmálafræðinga. Í þessu námskeiði öðlast nemendur skilning á gögnum og gagnavinnslu með það fyrir augum að gera þá að öruggum og hæfum notendum gagna. Megináhersla námskeiðsins er á myndræna framsetningu, en nemendur munu kynnast grundvallarviðmiðum sem eiga við um framsetningu gagna og hvernig hægt er að beita þeim viðmiðum á fjölbreyttar tegundir gagna. Í námskeiðinu vinna nemendur með raunhæf gögn tengd stjórnmálafræði og opinberri stjórnsýslu og öðlast verklega færni í því að sækja, vinna með og miðla gögnum með viðurkenndu gagnavinnsluforriti.
Að loknu námskeiði eiga nemendur að:
- Skilja og geta beitt lýsandi tölfræði
- Geta nefnt helstu viðmið sem gilda um myndræna framsetningu gagna
- Geta unnið með og framkvæmt einfaldar aðgerðir á gögnum með viðurkenndu gagnavinnsluforritinu
- Geta miðlað tölulegum upplýsingum með skilvirkum og réttum hætti
Nauðsynlegt er að nemendur hafi lokið STJ208G Gagnalæsi og framsetning og STJ346G Ályktunartölfræði til þess að geta tekið Spurningakannanir, gagnagreining og ályktanir


