Chat with us, powered by LiveChat
 
Hjúkrunarfræði, BS, 240 einingar
Aðgangskröfur:

Til að hefja BS-nám við Hjúkrunarfræðideild skal stúdent hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Þá nægir lokapróf frá verk- og raunvísindadeild (áður frumgreinadeild) Keilis (háskólabrú) til inngöngu í Hjúkrunarfræðideild. 

Æskilegur undirbúningur samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 er: 3. hæfniþrep í íslensku, ensku og stærðfræði. Auk þess er mælt með því að stúdent hafi lokið 10 fein á 3. þrepi í efnafræði og/eða stærðfræði og 5 fein á 3. þrepi í líffræði.

Samkeppnispróf eru haldin í desember ár hvert og miðast fjöldatakmörkun við 120 nemendur. Framkvæmd fjöldatakmörkunar er þannig:

Nemendum sem standast öll samkeppnispróf, þ.e. próf í öllum námskeiðum haustmisseris á 1. ári BS-náms, er raðað eftir veginni meðaleinkunn, frá þeirri hæstu til þeirrar lægstu, og er 120 nemendum með hæstu meðaleinkunnirnar boðið námspláss á vormisseri næsta árs.

Ef færri en 120 nemendur ná öllum samkeppnisprófum er nemendum sem hafa fallið í einu prófi raðað eftir veginni meðaleinkunn, frá þeirri hæstu til þeirrar lægstu, og þeim nemendum sem hlotið hafa hæsta meðaleinkunn boðið námspláss á vormisseri 1. námsárs, þar til náð hefur verið þeim fjölda nemenda sem fjöldatakmörkun kveður á um.

Tilhögun náms:
Fullt nám.
Námskröfur:

Ljúka þarf 240 einingum fyrir brautskráningu sem alla jafna fer fram á fjórum árum, en hámarkstími til námsins er sex ár. Í náminu er lögð áhersla á að kenna um manninn, umhverfi hans og heilsu, og hvernig hægt er með hjúkrun að hafa áhrif á aðstæður hans og líðan. Á fyrstu tveimur árunum fer fram kennsla í undirstöðugreinum hjúkrunar í raun-, félags- og hugvísindum ásamt kennslu í hjúkrunarfræði og heilbrigðisvísindum, auk aðferðafræði og tölfræði. Eftir því sem líður á námið eykst vægi hjúkrunarfræðinnar og við tekur sérhæfðari hjúkrun. Lokaverkefni til BS-prófs er unnið á 4. námsári og vinna nemendur það annað hvort einir eða í litlum hópum. Lágmarkseinkunn í bóklegum námskeiðum er 5,0 en 6,0 í hjúkrunarnámskeiðum. Stuðst er við fjölbreyttar kennsluaðferðir, fyrirlestra, verklegar æfingar, umræðutíma og verkefnavinnu.  Klínískt nám fer fram á öllum námsárum, ýmist samhliða eða í kjölfar fræðilegrar kennslu og fer fram á heilbrigðisstofnunum um allt land. Nemendur þurfa því að gera ráð fyrir að hluti klíníska námsins fari fram utan höfuðborgarsvæðins þ.e. á Akranesi, Selfossi, Keflavík, Akureyri, Ísafirði og víðar. 

Hæfniviðmið:
Skoða
Kennarar:
Skoða
Aðgangur að frekara námi:
BS-próf er lágmarksskilyrði til inngöngu í meistaranám í hjúkrun á Íslandi.
Starfsréttindi (ef við á):
Stúdentar sem lokið hafa BS-gráðu í hjúkrunarfræði öðlast starfsleyfi hjúkrunarfræðings á Íslandi. Starfsleyfið er veitt af Embætti landlæknis.
Frekari upplýsingar um námsleiðina:

Grunnnám í hjúkrunarfræði tekur 4 ár og lýkur með BS-gráðu í hjúkrunarfræði. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á margbreytileika mannsins og áhrifum heilbrigðis og sjúkleika á líðan hans og aðstæður. Kennsla í hjúkrunarfræði miðar að því að nemendur verði færir um að viðhalda og efla heilbrigði skjólstæðinga sinna og bæta líðan þeirra í veikindum.

Hjúkrunarfræði er einungis hægt að stunda sem aðalgrein. Námið er alls 240 einingar og er því 30 einingar á misseri ef fullt nám er stundað. Hámarkstími til námsins er hins vegar 6 ár.

Á fyrstu tveimur árunum fer fram kennsla í undirstöðugreinum hjúkrunar, í raun- og hugvísindum og í sjúkdóma- og lyfjafræði ásamt kennslu í hjúkrunarfræði. Eftir því sem líður á námið eykst vægi hjúkrunarfræðinnar og við tekur sérhæfðari hjúkrun. Klínískt nám fer fram á öllum námsárum, ýmist samhliða eða í kjölfar fræðilegrar kennslu.

BS-próf í hjúkrunarfræði er nauðsynleg forsenda starfsleyfis í hjúkrun.

Nemendur sem ekki eru skráðir í hjúkrunarnám þurfa heimild deildar til að skrá sig í námskeið.